31.12.2009 - Áramótaraus

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11709
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Re: 31.12.2009 - Áramótaraus

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt árið á enda komið og ekki úr vegi að líta yfir það helsta sem gerðist á árinu.

Flugmódelfélag Suðurnesja hélt aðalfund sinn upp úr miðjum janúar og Flugmódelfélag Akureyrar fylgdi svo fast á hæla með sinn aðalfund í lok mánaðarins. Engar hallarbyltingar voru gerðar.

Ekki gerðist mikið fréttnæmt í febrúar en Þytur hélt þó fund á nýjum stað í húsnæði Vinnuskóla Hafnarfjarðar og Flugmálafélagið hélt þing sitt undir lok mánaðarins.

Í mars hélt Smástund sinn aðalfund og nýr íslenskur flugþáttur, Skýjum ofar, hóf göngu sína á ÍNN.

Í apríl var sól tekin að hækka á lofti svo um munaði og flugdagarnir urðu sífellt fleiri og fleiri. Þröstur hélt eitt af sínum fjölmörgu búðarkvöldum á Tungubökkum og var líf og fjör að venju. Flugmódelfélag Suðurnesja hélt svo fyrstu flugkomu ársins undir lok mánaðarins og var flott mætting enda menn hungraðir í góðan hitting eftir langan vetur.

Maímánuður rann svo upp með sínum fjölmörgu flugkvöldum. Flotflugkoma FMS var svo haldin um miðjan mánuðinn og gekk ljómandi vel. Undir lok mánaðarins var svo komið að hraðflugskeppni FMS og mættu 10 galvaskir kappar til leiks. Eitt besta flugkvöld sumarsins var svo sama kvöld og Júróvisjón fór fram.

Lendingarkeppni FMS var haldin í byrjun júní og mættu 11 keppendur til leiks og skemmtu sér fram eftir kvöldi.

Böðvar hélt fjölþrautamótið sitt í byrjun júlí og var það vel sótt. Einar Páll hélt svo sína árlegu stríðsfuglaflugkomu í lok mánaðarins og tókst hún vel upp í fínu veðri.

Venju samkvæmt þá var nóg um að vera í ágúst, Pétur hélt sína árlegu Piper Cub flugkomu og þrátt fyrir smá skúri þá tókst hún vel upp. Hin árlega flugkoma Flugmódelfélags Akureyrar var svo haldin þann 10.ágúst og skemmtu menn sér þar vel. Margar glæsilegar vélar voru á svæðinu og var mikið flogið. Þrjár þotur og einn túrbóprop flugu á flugkomunni en aldrei áður hafa jafn margar þrýstiloftsknúnar vélar verið saman komnar. Helgina eftir var svo komið að stórskalaflugkomunni hjá Einari Páli á Tungubökkum og gekk hún ljómandi vel í frábæru veðri.

Í september var dag tekið að stytta nokkuð og sífellt fór fækkandi góðum flugdögum. Hin árlega flugkoma Fréttavefsins og Ljósanæturflugkoma FMS var haldin í byrjun mánaðarins og gekk ljómandi vel. Einnig var boðað að inniflug hæfist nú í vetur og þó nokkur áhugi virtist vera fyrir því meðal módelmanna.

Þann 11.október var svo komið að fyrsta inniflugstímanum og tókst hann vel upp og var mikil áhugi fyrir áframhaldandi flugi meðal viðstaddra. Til að byrja með þá var ákveðið að hafa tíma aðra hverja viku en fljótlega kom í ljós að áhuginn var svo mikill að ákveðið var að skipta yfir í vikulega tíma strax í nóvember. Félagsskapur þessi kallar sig Innherja og er innan vébanda FMS.

Í byrjun nóvember fóru FMS og Þytur saman í heimsókn til flugakademíu Keilis og áttu þar skemmtilega kvöldstund og fræddust um starfssemi flugskólans. Átakalítill aðalfundur Þyts var svo haldinn í lok mánaðarins.

Fáir flugdagar voru í desember en þeir voru þeimur betur nýttir þegar þeir loksins komu. Innherjarnir enduðu inniárið á tvöföldum tíma sem var vel sóttur og bíða menn spenntir eftir 10.janúar en þá hefst inniflugið aftur á nýju ári.

Lengra er árið víst ekki búið að vera!

Veðurspáin fyrir gamlárs- og nýjársdag lofar mjög góðu og eflaust verður fjölmenni á flugvöllum módelfélaganna.

Heimsóknum á Fréttavefinn hefur fjölgað þó nokkuð á nýja árinu, 21% fleiri gestir litu 42% oftar við á árinu sem er að líða og skoðuðu 73% fleiri síður heldur en í fyrra.

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.


Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn:
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Myndasafn Þyts
Flugmódelfélag Akureyrar
Smástund

Vídeó:
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélag Akureyrar
Icelandic Volcano Yeti
Svara