Re: Flugkoma FMFA á Melgerðismelum 10. ágúst
Póstað: 31. Júl. 2013 10:08:12
Kæru félagar og vinir.
Flugkoma FMFA 2013 verður kannski ekki eins lífleg og í fyrra, en þó getum við búist við góðu veðri og skemmtilegu flugi eins og vanalega.
Sendagæsla og flug byrja klukkan 09:00 og flugmenn með senda á 35mHz bandinu eru hvattir til að afhenda senda sína eins fljótt og auðið er og fá tíðniklemmu til að koma í veg fyrir óhöpp. Tíðnispjaldið okkar góða verður á sínum stað. Þeir sem eru með senda á 2,4 gHz ættu ekki að þurfa að afhenda sína senda, en þeir mega það ef þeir vilja.
Módel skal geyma á sérmerktum svæðum sem staðsett eru vestan við startboxið. Þannig geta áhorfendur skoðað módelin handan girðingar án þess að eiga á hættu að ganga á þau.
Hver flugmaður verður að hafa aðstoðarmann með sér sem getur sagt honum til um það sem er að gerast annars staðar og aðstoðað hann við að færa til módel og starttæki fyrir og eftir flug. Þetta er sérlega mikilvægt þar sem við getum búist við flugvélum í fullri stærð í heimsókn og þá er gott að hafa einhvern sem getur leiðbeint manni um staðsetningu og annað. Ætlast er til að flugmenn eða aðstoðarmenn fjarlægi módel og starttæki úr startboxinu þegar flugi er lokið.
Ekki má ræsa mótora nema módelið sé statt í startboxinu. Módelum má aðeins aka á merktri braut á milli flugbrautar og startsboxins. Aðstoðarmaður skal þá vera til taks til að hafa hemil á módelinu og forða árekstrum.
Flugmenn skulu standa á hliðarlínu flugbrautar á meðan þeir fljúga, það nálægt hver öðrum að þeir geti talast við á meðan þeir fljúga. Þeir skulu bara fljúga yfir flugbraut og austan megin við hana. Þegar tvö eða fleiri módel eru á lofti í einu skulu allir fljúga sama umferðarhring.
Algerlega er bannað að fljúga yfir sýningarsvæði, startbox og bílastæði.
Eftir flug verður að drepa á mótor þegar módel kemur inn í startboxið.
Upp úr klukkan 18:30 ætlum við síðan að fíra upp í grillinu og skella nokkrum vel völdum steikum á það til að seðja sárasta hungur. Þeir sem vilja fagna með okkur í því geta nálgast miða á grillið í Flugstöð Þórunnar Hyrnu, en þar verða líka seld kaffi og vöfflur allan daginn. Jón V. Pétursson ætlar að koma með dálítið af dóti úr Reykjavík og bjóða þeim sem vantar eitthvað smálegt til sölu.
Með von um skemmtilega flugkomu.