Í stuttu máli þá var hæðarmælir hannaður og smíðaður snarlega. Myndin hér fyrir neðan sýnir græjuna.
Strompurinn lengst til hægri er eins konar barómeter sem skynjar loftþyngd. Samrásin þar vinstra megin er 741 aðgerðamagnari til að magna upp veika merkið frá skynjaranum, samrásin fyrir miðju er LM331 sem umbreytir breytilegri spennu í breytilegan tón, og lengst til vinstri, vinstra megin við brúna þéttinn, er kristalstýrður sendir á 27,120 MHz.
Á jörðu niði var stuttbylgjuviðtæki Sony 7600 sem tengt var heimasmíðaðri rás sem breytti breytilegri tónhæð í breytilega spennu sem fór inn á mæli. Þessi rás var minnir mig einnig smíðuð umhverfis LM331 rás, en búnaðurinn er líklega týndur.
Þetta var síðan allt kvarðað á jörðu niðri með svokölluðum U-manometer, þ.e. gegnsæri slöngu sem beygð var í U og fyllt að hluta með vatni. Með því að lyfta öðrum endanum upp eða niður og fylgjast með hæðarmuninum á vatnssúlunum var hægt að búa til nokkuð nákvæman undirþrýsting. Notaði síðan upplýsingar um sambandið milli lofthæðar og þrýstings til að stilla mælinn með stilliskrúfunni efst til hægri. (U-manometer er t.d. notaður til að mæla blóðþrysting, en þar er notað kvikasilfur í stað vatns. Vatnið er mun léttara og gefur betri upplausn við lágan þrýsting).
Þessi búnaður virkaði vel, og við fórum með græjuna í Leirdal þar sem módelvöllur Þyts var. Brettið var spennt undir vængteygjuna og lagt af stað upp í himinhvolfið. Hærra, og hærrra og enn hærrrra. Allt þar til módelið leit út eins og mýfluga..... Mælirinn steig og steig, þar til hann stóð í 1500 fetum eða 500 metrum! Þá þótti okkur nóg komið.

Smella á mynd til að stækka...

Stuttbylgjuviðtækið