Áramótaraus 2023

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11440
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Áramótaraus 2023

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt módelárið baki og var það ansi líflegt og Iceland Open F3F var haldið í annað sinn með 18 keppendum víðs vegar að. Jörð skalf víða og tvö eldgos létu sjá sig í nágrenni við Arnarvöll þó þau hafi staðið frekar stutt yfir miðað við eldra gos og mögulega gæti það þriðja brotist upp áður en árið er úti. Sumir voru auðvitað út á velli hvað sem sólargangi og snjó leið og ekkert nema gott eitt um það að segja! Aðalfundastörf flugmódelfélaganna fóru fram venju samkvæmt, samkomur voru á sínum stað yfir sumarið sem var heilt yfir frekar milt og gott og segir það sína sögu að lítið náðist að fljúga hang yfir sumarmánuðina. Einnig sást talsvert til flugmódelmanna á Dalvík á árinu og er mikill uppgangur þar í sveit.

Á árinu setti Samgöngustofa líka nýjar þjálfunar- og skráningarkröfur en rétt er að vekja athygli á því að tryggingar flugmódelfélagana gilda ekki fyrir þá sem hafa ekki staðist prófið en sú krafa kemur frá tryggingafélögunum í gegnum þeirra endurtryggendur. Prófið er tekið á netinu og er ekki þungt en að auki geta þeir sem það þreyta verið með námsgögnin með sér.

Dagana 29. apríl til 1. maí var svo Iceland Open F3F haldið í annað sinn en að þessu sinni mættu 18 keppendur til leiks, 5 frá Bretlandi, 3 frá Danmörku, 3 frá Íslandi, 3 frá Þýskalandi, 2 frá Taívan, 1 frá Japan og 1 frá Sviss. Ansi alþjóðlegt mót það og margir sem nýttu tækifærið til að ferðast um Ísland, bæði fyrir og eftir mótið, með og án maka. Það náðist að fljúga 10 umferðir, sjö fyrsta daginn, þrjár annan daginn en ekki var hægt að fljúga þriðja daginn. Ákveðið hefur verið að halda mótið framvegis annað hvert ár svo það lendi ekki á sama árið og heimsmeistaramótið í greinni.

Þytur hóf sumarið með vorgrilli 6. maí og var fínasta mæting.

Næstum því Kríumót var haldið 10. júní á Sandskeiði en óvenju góðmennt var svo ekki náðist að halda mótið sökum manneklu!

13. júní var svo komið að fyrstu flotflugkomu Flugmódelfélag Suðurnesja en þeim var svo fram haldið mánaðarlega út sumarið og sem fyrr var fínasta mæting á þær.

17. júlí var svo litið í heimsókn á Smástundarmenn en völlurinn var glæsilegur sem fyrr og hvet ég flugmódelmenn til að kíkja í heimsókn sem oftast næsta sumar en þeir eru með föst flugkvöld á mánudögum yfir sumartímann. 22. júlí var Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls á sínum stað og var ágætis veður, hiti um 15 gráður, gosmóða og lítill vindur. Fínasta mæting var og mikið flogið og gekk allt áfallalaust fyrir sig. Flugmódelmenn, konur og börn, skemmtu sér konunglega fram eftir degi við flug og spjall.

9. ágúst var Piper Cub flugkoman haldin á Hamranesi og bauð Pétur viðstöddum upp á Pepsi Max og Prins sem rann ljúflega niður. Eins og nafnið gefur til kynna voru nokkrir Piper Cub á staðnum og kom Sævar með áhugaverðan Cub frá Flite Test en Jón tók einnig nokkrar góðar rispur á Xc(ub)alibur. 12. ágúst var svo komið að flugkomu Flugmódelfélags Akureyrar á Melgerðismelum en eins og oft áður var boðið upp á fínasta veður og var mikið flogið og alls konar kúnstir framdar í háloftunum. 19. ágúst var svo komið að Stórskalaflugkomu Einars Páls en þetta var í 38. skiptið sem hún er haldin en sú fyrsta var haldin á Sandskeiði árið 1985. Veðrið var fínt og bætti í sólina eftir því sem leið á daginn og var blíðan nýtt í alls konar flug og skemmtilegheit. Sú vél sem vakti án efa mesta athygli, að öðrum ólöstuðum, var Loftleiða Stinson-in, TF-RVB, sem Bjarni er búinn að vera að vinna í síðustu árin og styttist óðum í frumflugið á henni.

Það lifnaði svo yfir þotufluginu með haustinu og stærsta þotuflugkoma Íslandssögunnar var haldin 18. september og stefnt er á góða þotuflugkomu(r?) á næsta ári.

2015 urðu þau tímamót í sögu Fréttavefsins að gefið var út á prenti tímarit Fréttavefsins, Flugmódelárið, með því helsta sem gerðist á árinu. Þökk sé góðum viðtökum hefur orðið framhald á og leit níunda tölublað tímarits Fréttavefsins dagsins ljós í lok nóvember. Spurning hvort það verði ekki að gera eitthvað á næsta ári til að fagna 10 ára afmælinu...

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum.

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2022 annálinn en 2023 útgáfan fer í vinnslu á næsta ári og verður frumsýnd við gott tækifæri.

Icelandic Volcano Yeti
Svara