Áramótaraus 2024

Hér má ræða allt milli himins og jarðar
Svara
Passamynd
Sverrir
Site Admin
Póstar: 11598
Skráður: 17. Apr. 2004 03:33:31

Áramótaraus 2024

Póstur eftir Sverrir »

Þá er enn eitt módelárið baki og var það nokkuð líflegt þó oft hafi verið betri flugskilyrði, alla vega á SV horninu. Sex eldgos, þegar þessi orð eru rituð, létu sjá sig í nágrenni við Arnarvöll á árinu en þar sem viðbragðsaðilar eru farnir að læra inn á þetta eru lokanir ekki jafn langar við völlinn og fyrst var. Sumir voru svo auðvitað fastagestir út á velli hvað svo sem eldgosum, sólargangi og snjó leið og ekkert nema gott eitt um það að segja! Aðalfundastörf flugmódelfélaganna fóru fram venju samkvæmt, samkomur voru á sínum stað yfir sumarið en lítið náðist að gera í hástarti og hangi yfir sumartímann þó Íslandsmótið í hangi hafi náðst í hús.

14. maí var svo komið að fyrstu flotflugkomu Flugmódelfélag Suðurnesja en þeim var svo fram haldið mánaðarlega út sumarið og sem fyrr var fínasta mæting á þær.

9. júní var svo þotuflugkomunni og fyrir utan ótal lítra af risaeðludjús og ómælt magn af rafeindum sem hurfu út í loftið þá var ekkert nema botnlaust stuð og stemmning hjá viðstöddum og ekki skemmdi grillið fyrir!

20. júlí var svo loksins komið að Kríumótinu en það hefur aldrei verið svona seint á ferðinni áður. Sökum manneklu varð ekki mikið úr keppnishaldi en viðstaddir æfðu sig þeimur betur í spilstörtum og flugi.
27. júlí var Stríðsfuglaflugkoma Einars Páls á sínum stað og þrátt fyrir þokkalega veðurspá þá gekk hún ekki eftir og einunigs var flugfært í um nítíu mínútur í það heila.

7. ágúst var Piper Cub flugkoman haldin á Hamranesi og mikið var flogið af Cub-um, eðli málsins samkvæmt, og á svæðinu voru einnig flugmódel sem upplifa sig sem Cub-a sem nýttu tækifærið og tóku þátt í fjörinu, enda engin ástæða til að útiloka einn né neinn, hvorki á grundvelli litaháttar, gulur var ríkjandi, né annars.
10. ágúst var svo komið að flugkomu Flugmódelfélags Akureyrar á Melgerðismelum en eins og oft áður var boðið upp á ágætis veður og var mikið flogið og alls konar kúnstir framdar í háloftunum.
17. ágúst var svo komið að Stórskalaflugkomu Einars Páls en þetta var í 39. skiptið sem hún er haldin og það verður síðan mikið um dýrðir og fjör á næsta ári þegar Stórskalaflugkoman fagnar sínu fertugasta afmæli en allt hófst þetta á Sandskeiði árið 1985. Það var nánast logn fram til klukkan tvö og var það óspart nýtt og mikið flogið.

1. september var svo Íslandsmótið í hangi haldið á Bleikisteinsháls í þokkalegum aðstæðum. Fjórir keppendur mættu til leiks og voru flognar 9 umferðir. Besti tími mótsins var 46,02s sem Sverrir flaug í áttundu umferð. Sverrir Gunnlaugsson stóð uppi sem sigurvegari mótsins.

2015 urðu þau tímamót í sögu Fréttavefsins að gefið var út á prenti tímarit Fréttavefsins, Flugmódelárið, með því helsta sem gerðist á árinu. Þökk sé góðum viðtökum hefur orðið framhald á og leit tíunda tölublað tímarits Fréttavefsins dagsins ljós í lok nóvember.

Fréttavefurinn óskar ykkur velfarnaðar á komandi ári og þakkar samveruna á árinu sem er að líða.

Til að stytta mönnum stundir fram eftir degi þá er sjálfsagt að renna yfir þær fjölmörgu ljósmyndir og vídeó sem má finna af íslensku módelflugi á netinu.

Myndasöfn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Flugmódelfélagið Þytur
Flugmódelfélag Akureyrar

Vídeó
Fréttavefurinn
Flugmódelfélag Suðurnesja
Sverrir á YouTube - Sjá tengla hægra megin yfir í aðra flugmódelmenn á YT.

Minni einnig á Gullmolana en nokkrir áhugamenn um flugmódelsöguna hafa verið að koma gömlum minningum á stafrænt form og á netið svo allir geti notið þeirra á komandi árum.

Svo er ekki úr vegi að líta yfir 2023 annálinn en 2024 útgáfan fer í vinnslu á næsta ári og verður frumsýnd við gott tækifæri.

Icelandic Volcano Yeti
Svara